Lög og samþykktir samtakanna

Lög Samtaka kvenna í vísindum

1. grein.

Samtökin heita Samtök kvenna í vísindum. Á ensku heitir félagið Icelandic Association of women in the Sciences.

2. grein.

heimili og varnarþing félagsins er í Reykjavík.

3. grein.

Markmið.

Samtök kvenna í vísindum eru fyrir konur innan allra sviða vísinda. Markmið samtakanna eru að stuðla að valdeflingu og samtakamætti vísindakvenna, efla tengslanet og auka sýnileika kvenna í vísindastarfi. Samtökin eru auk þess vettvangur fræðslu og stuðnings fyrir félagskonur og sinna aðhalds- og upplýsingahlutverki varðandi stöðu kvenna í vísindum.

4. grein.

Félagsaðild.

Félagar geta orðið allar konur sem lokið hafa bakkalárgráðu (BS, BA, Bed eða sam bærilegu prófi) á sviði vísinda.

5. grein.

Starfstímabil, aðalfundir og félagsfundir.

5a. Starfstímabil félagsins er almanaksárið.

5b. Aðalfundur hefur æðsta vald um málefni samtakanna en hann skal haldinn vor hvert og er hann löglegur ef til hans er boðað með minnst fjórán daga fyrirvara. Formaður og stjórn eru kjörin með einföldum meirihluta þeirra félagsmanna er mæta á aðalfund. Kosning er til eins árs í senn.

Eftirfarandi mál ber að taka fyrir á aðalfundi:

Skýrslu stjórnar fyrir síðastliðið ár.

Afgreiðslu ársreikninga.

Lagabreytingar.

Kosningu formanns og stjórnar.

Kosningu skoðunarmanna reikninga.

Önnur mál.

5c. Boða má til aukaaðalfundar ef meirihluti stjórnar eða a.m.k. fimmtungur félagsmanna fer fram á það skriflega og leggur fram tillögu að dagskrá.

5d. Aðra félagsfundi má halda þegar stjórn ákveður og skal boða til þeirra með sama hætti og aðalfundi. Allar ákvarðanir stjórnar- og félagsfunda skal bókfæra af ritara. Stjórnin getur veitt öðrum aðilum áheyrnaraðild að fundum, þjóni það hagsmunum félagsins.

5e. Á stjórnar- og félagfundum ræður einfaldur meirihluti atkvæða. Ef atkvæði falla jöfn, ræður atkvæði formanns úrslitum. Ef atkvæði falla jafnt í kosningu til formanns skal draga um það hver nær kjöri.

5f. Fundargerðarbók skal haldin og í hana skal skrá ákvarðanir stjórnar- og félagsfunda ásamt úrslitum atkvæðagreiðslum nema annað sé ákveðið á fundinum.

6. grein

Stjórn félagsins.

6a. Stjórnin stýrir öllum málefnum félagsins og gætir hagsmuna þess á grundvelli starfsreglna og ákvarðana aðalfunda og félagsfunda.

6b. Aðaflundur kýs formann og 8 stjórnarmenn. Eftir kjör skiptir stjórnin með sér verkum sem hér segir: Varaformaður, ritari, gjaldkeri og fimm meðstjórnendur.

6c. Stjórnarmenn eru kosnir til eins árs og mega ekki sitja samfellt lengur en í 10 ár.

6d. Stjórnarfundir eru haldnir eftir þörfum og boðaðir af formanni eða staðgenglu hans og skulu boðaðir með minnst viku fyrirvara. Ef minnst þrír stjórnarmenn krefjast stjórnarfundar skal hann boðaður innan hálfs mánaðar.

7. grein.

Slit félagsins.

Ef 3/4 hlutar félagsmanna óska þess, má slíta félaginu sv ofremi að engar skuldbindingar hamli því. Ef einhverjar eignir eru, renna þær til góðgerðarsamtaka sem vinna að málefnum kvenna.

8. grein.

Ýmis ákvæði.

Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi svo fremi að breytingartillagan fái 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Tillögur að lagabreytingum þurfa að berast stjórn félagsins eigi síðar en viku fyrir aðalfund og skal stjórn félagsins kynna félagsmönnum tillögurnar með tölvupósti.

Samþykkt á 1. aðalfundi félagsins 2. júní, 2016.