Samtök kvenna í vísindum eru hugsuð sem vettvangur fyrir konur í vísindum til að hittast, mynda og efla tengsl sín á milli. Þá er sérstaklega horft til þess að samtökin geti stuðlað að því að konur í vísindum myndi sterkt og varanlegt stuðnings- og tengslanet en skortur á því er talinn vera ein af orsökum kynjahalla í vísindum. Allar konur sem stunda rannsóknir á öllum fræðasviðum eða koma að vísindastörfum í einhverri mynd eru velkomnar, hvort sem þær vinna innan veggja háskólanna, í rannsóknastofnunum, akademíum eða úti í fyrirtækjum.